Helgi Sigurðsson afreksmaður úr Ægi fallinn frá Prentvæn útgáfa
Skrifað af: Ásgeir Ásgeirsson   
Fimmtudagur, 21. mars 2019 08:08

Sundfélagið Ægir minnist Helga Sigurðssonar Ægirings, sem nú er fallinn frá 85 ára að aldri.

Helgi, sem fékk viðurnefnið Sundkóngur Íslands, var á árunum 1952 til 1957 mesti afreksmaður Íslands í sundi, sem jafnframt var eina íþróttagreinin sem hann tók þátt í á ævi sinni. Helgi gekk í Sundfélagið Ægi árið 1947 og byrjaði að keppa fyrir félagið um áramótin 1950.

Nýorðinn 17 ára, 22. mars 1951, setti Helgi sitt fyrsta Íslandsmet af fjölmörgum. Það var í 800 m skriðsundi og sama ár bætti hann metið í 1.000 og 1.500 m skriðsundi.Hann varð margfaldur Íslandsmeistari í skriðsundum á keppnisárum sínum; 1951-1959. Og þá setti hann marga tugi af Íslandsmetum á millivegalengdum í skriðsundi og átti metin í 300, 400, 500, 800, 1.000 og 1.500 m skriðsundi á sama tíma. Árið 1955 setti hann alls 10 Íslandsmet og fékk fyrir það afreksmerki ÍSÍ úr gulli. Árið 1955 vakti Helgi athygli á Norðurlandamótinu í Ósló í Noregi, er hann komst á verðlaunapall. Varð í þriðja sæti í 1.500 m skriðsundi. Helgi var þá kominn í hóp bestu skriðsundsmanna Evrópu.

Helgi Sigurðsson er sá sundmaður sem oftast hefur fagnað sigri í keppni í Íslendingasundinu, hampað Sundbikar Íslands og hlaut sæmdarheitið "Sundkóngur Íslands" fimm sinnum; 1952, 1953, 1954, 1956 og 1957. Keppt var í 500 m sundi í sjó, frjáls aðferð. Jónas Halldórsson varð Sundkóngur 4 sinnum, Erlingur Pálsson og Jón Ingi Guðmundsson, þrisvar hvor.

Stjórn Ægis þakkar afkomendum Helga fyrir þessa samantekt.